top of page

SAGA HNITS VERKFRÆÐISTOFU

Hnit verður hluti af Artelia Group. Haukur, Christian, Kristinn

Hnit verkfræðistofa verður hluti af Artelia Group.

 

Hnit verkfræðistofa verður frá mars 2025 hluti af Artelia Group, einni stærstu verkfræðistofu Evrópu. Artelia Group er alþjóðlegt fyrirtæki með um það bil 10.000 starfsmenn og árlega veltu yfir 1,15 milljarða evra.

Hnit, sem hefur verið starfrækt í meira en 50 ár með 40 öfluga starfsmenn, gengur til liðs við norræna hluta Artelia. Sem hluti af alþjóðlegu teymi veitir þessi sameining okkur tækifæri til að bjóða upp á fjölbreyttari og víðtækari sérfræðiþekkingu til að takast á við fleiri og stærri verkefni og veitir starfsmönnum okkar spennandi tækifæri.

 

Hnit verður áfram sama verkfræðistofan með sömu starfsmenn, stjórnendur og þjónustu og áður. Við hlökkum til að hefja þennan nýja kafla og halda áfram að þróast til framtíðar með öflugu baklandi.

 

Á meðfylgjandi mynd sem tekin var í tilefni dagsins eru frá vinstri: Haukur J. Eiríksson, fráfarandi stjórnarformaður Hnits, Christian Listov-Saabye, framkvæmdastjóri Artelia Nordics og verðandi stjórnarformaður Hnits og Kristinn Guðjónsson, framkvæmdastjóri Hnits.

Kristinn Guðjónsson, framkvæmdastjóri

Hnit_logo_50_2.png

Hnit í 50 ár

 

Árið 2020 var tímamótaár í starfsemi Hnits verkfræðistofu hf. sem fagnaði 50 ára afmæli, en fyrirtækið var stofnað árið 1970. 

 

Hnit verkfræðistofa hf. hefur haft að leiðarljósi að víkka sjóndeildarhringinn og nýta sér þau sóknarfæri sem gefast á hverjum tíma, en umfram allt að skila góðum verkum. Starfsemin er háð aðstæðum í efnahagslífinu á hverjum tíma og sífellt eru settar auknar kröfur á starfsemina, samhliða því sem samkeppni á útboðsmarkaði verður harðari. Það er fyrst og fremst starfsfólki að þakka að stofan dafnar og ég þori að fullyrða að hún hefur gott orð á sér meðal verkkaupa okkar. Það orðspor munum við varðveita og bæta enn frekar.

 

50 ár er stór áfangi fyrir okkur öll, sama hve lengi við höfum starfað hjá Hnit verkfræðistofu hf. Við ætlum að fagna honum saman í starfi og leik á árinu. Við munum fagna þeim mannauði sem stofan hefur yfir að ráða, við munum minnast þeirra félaga sem hafa komið að tilurð og vexti stofunnar og við munum einnig fagna þessum áfanga með velunnurum stofunnar á viðeigandi vettvangi.

Kristinn Guðjónsson, framkvæmdastjóri

Yfirlit sögu Hnits

 

Stofnað 1970

Verkfræðistofan Hnit hf var stofnuð árið 1970 og veitti þá fyrst og fremst bæjar- og sveitarfélögum almenna verkfræðiþjónustu, auk þess að annast mælingar og eftirlit. Stofnendur Hnits voru mælingaverkfræðingarnir Guðmundur Björnson og Baldur Jóhannesson.

Starfsemin vatt smám saman upp á sig og árið 1982 keypti Hnit kortagerðardeild Forverks. Í kringum 1988 fór Hnit að tileinka sér landupplýsingatækni sem þá var að ryðja sér til rúms og brátt var komin öflug deild innan fyrirtækisins á því sviði. Hugbúnaðargerð tók einnig að þróast innan fyrirtækisins á þeim tíma og var sjónum einkum beint að því að þróa hugbúnað á sviði kortagerðar og upplýsingatækni. Þessi þrjú svið urðu stór þáttur í starfsemi Hnits, en árið 2006 voru þau flutt í sérstakt dótturfyrirtæki, Samsýn ehf., sem síðar var aðskilið frá verkfræðistofunni.

 

Árið 1993 stofnaði Hnit dótturfyrirtækið Hnit-Baltic GeoInfoServisas í Litháen. Jafnframt hóf verkfræðistofan starfsemi í Rússlandi á vegum annars dótturfyrirtækis, KamHnit. Árið 1998 var stofnað dótturfyrirtækið Envirotech í Lettlandi. Þessi fyrirtæki voru síðar aðskilin frá verfræðistofunni.

 

Hnit hefur verið í samfelldum vexti allt frá stofnun, enda haft að leiðarljósi að víkka sjóndeildarhringinn og nýta sér þau sóknarfæri sem gefast á hverjum tíma, en umfram allt að skila góðum verkum.  Mestur varð starfsmannafjöldinn á Íslandi um 65 manns en starfsmönnum fækkaði árið 2006 við færslu þriggja sviða yfir í Samsýn. Niðursveiflan í byggingariðnaði eftir bankahrunið 2008 hafði áhrif á umsvif fyrirtækisins en frá 2010 hefur fyrirtækið verið í hægum vexti á ný.

 

 

Árið 2008 urðu breytingar á eignarhaldi Hnits og var fyrirtækinu jafnframt skipt upp í tvær aðskildar einingar. Í dag heitir fyrirtækið Hnit verkfræðistofa hf og eru eigendurnir allir í starfsliði fyrirtækisins. Sérstakt eignarhaldsfélag var stofnað um rekstur húsnæðis og dótturfélaga Hnits og starfsemi þeirra þannig aðskilin frá rekstri verkfræðistofunnar. Í dag er ekkert beint eignarhald milli verkfræðistofunnar og eignarhaldsfélagsins.

Hnit verkfræðistofa fagnaði 40 ára afmæli árið 2010. Af því tilefni var útbúið stutt ágrip af sögu Hnits fyrstu 40 árin, sem hlaða má niður á PDF formi með því að smella hér.

Hnit verkfræðistofa hf.,- Háaleitisbraut 58-60 - 108 Reykjavík -  kt. 510573-0729   - sími 5 700 500 - Hafa samband / Contact

BSI 2022.png

Hnit verkfræðistofa hefur verið starfandi frá árinu 1970 og sérhæfir sig í alhliða verkfræðiráðgjöf á sviði mannvirkjagerðar.

Hnit verkfræðistofa er hluti af Artelia Group.

Jafnlaunavottun_2020_2023_f_dokkan_grunn
bottom of page